ULTIMA THULE – VIÐ HEIMSENDA

Um þessar mundir fer fram viðamikil kynning á íslenskri kvikmyndalist í Póllandi á vegum Pólska kvikmyndasafnsins en síðast liðið haust voru pólskar kvikmyndir sýndar hér á landi undir sömu merkjum. Hátíðin hefur verið að ferðast á milli þriggja helstu borga Póllands undir yfirskriftinni Ultima Thule – Við heimsenda: Hún hófst 12. febrúar í Gdańsk (KinoPort at Łaźnia Centre for Contemporary Arts) og stóð yfir þar til 24. febrúar 2016. Síðan fluttist hún til Poznań 25 febrúar og verður þar til 8. mars n.k. (New Palace Cinema at the Castle Cultural Centre). Þann 9. mars kemur svo að Varsjá þar sem hátíðin verður til 20. mars í sýningaraðstöðu Pólska kvikmyndasafnsins (Iluzjon kvikmyndahúsið – Safn kvikmyndalistarinnar)

Á hátíðinni er sýndur mikill fjöldi íslenskra kvikmynda sem Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndamiðstöð Íslands skiptu með sér að útvega. Pólski kvikmyndafræðingurinn Jakub Sebastian Konefal, sem hefur lagt sig eftir íslenskri kvikmyndasögu og komið amk. tvisvar til Íslands í heimildaöflun, annaðist vali myndanna. Kvikmyndasafnið tók að sér að útvega eftirtaldar kvikmyndir og gera þær sýningarhæfar með nýrri skönnun og yfirfærslu yfir á DCP sýningarform að undanskilinni Sódómu Reykjavík sem er sýnd á filmu:

Ísland í lifandi myndum (Loftur Guðmundsson, 1925)

Björgunarafrekið við Lárabjarg (Óskar Gíslason, 1949)

Síðasti bærinn í dalnum (Óskar Gíslason, 1950)

Morðsaga (Reynir Oddsson, 1977)

Sódóma Reykjavík (Óskar Jónasson, 1992)

 Dagskrána í Varsjá má finna hér:

Leikstjórar og leikarar eru boðnir á hátíðina sem státar af margvíslegum viðburðum og einnig hefur fulltrúum Kvikmyndamiðstöðvar og forstöðumanni Kvikmyndasafnsins verið boðið á hluta dagskrárinnar í Varsjá sem hefst þriðjudaginn 9. mars. Forstöðumaður Kvikmyndasafnsins á því miður ekki heimangengt af ýmsum ástæðum en Kvikmyndamiðstöð sendir tvo fulltrúa.

Kvikmyndasafnið gerði skipuleggjendum hátíðarinnar kleyft að láta þýða myndirnar á pólsku m.a. með því að láta starfsmann sinn skrifa upp texta Björgunarafreksins og Síðasta bæjarins í dalnum þar sem ekkert textahandrit þessara mynda lá fyrir. Safnið hafði þegar látið gera Morðsögu upp með gæðaskönnun í London og hafði sjálft annast endurvinnslu hljóðsins (Bogi Reynisson) í samvinnu við hljóðver Huldars Freys Arnarsonar, hljóðmeistara. Safnið gekk frá enskum textum myndarinnar, endurnýjaði upphafstitla hennar (Erlendur Sveinsson) og hafði yfirumsjón með litgreiningunni sem fram fór í samvinnu við Reyni Oddson hjá Litgreiningarstofunni RGB (Eggert Baldvinsson). Reyndar var höfundur myndarinnar vakinn og sofinn yfir öllum þessum verkþáttum auk þess að vera aðalhvatamaður þess að myndin var gerð upp.

KVIKMYNDASAFNIÐ, NÝR HÁSKERPUSKANNI OG ENDURGERÐ MORÐSÖGU

Þetta verkefni, sem kennt er við Ultima Thule, sýnir okkur svo ekki verður um villst hveru mikilvægt það er fyrir Kvikmyndasafn Íslands að eignast fullkominn skanna sem getur leyst af hólmi þann skanna sem verið hefur í notkun hjá safninu síðan 2007. Nýr háskerpuskanni er forsenda þess að safnið geti boðið upp á nauðsynlega þjónustu á þessu sviði auk þess sem hann gerir því kleyft að sinna afritun og eftir atvikum björgun kvikmyndaarfsins í víðustu merkingu þess orðs. Hann yrði þjóðhagslega mjög hagkvæm fjárfesting. Það hljómar að vísu klisjulega að segja að nú sé stundin runnin upp og að við megum engan tíma missa en bæði vinnur tíminn gegn okkur viðstöðulaust og svo er það margsannað mál að nauðsynlegt er að geta gert upp kvikmyndirnar á meðan lykilaðstandendur þeirra eru enn á dögum, menn eins og kvikmyndatökumaðurinn, hljóðmaðurinn og leikstjórinn. Þetta sannaðist með áþreifanlegum hætti við endurgerð Morðsögu. Þáttur Reynis, sem nú er kominn hátt á áttræðisaldurinn, hefur t.d. verið mjög mikilvægur við endurgerð hennar. Hann hefur áfram getað haft lokaorðið og samþykkt eða hafnað breytingarhugmyndum sem aðalhöfundur verksins og í þeirri samvinnu allri hefur margt borið á góma bæði við vinnuna við myndina og í kaffistofu kvikmyndasafnsins þar sem Reynir er aufusugestur, sögur sem þarf að halda til haga og varða t.d. gerð Morðsögu. Á sínum tíma var það ein helsta gagnrýnin sem myndin fékk að hljóðið væri ekki í lagi, það skildist ekki allt sem sagt var. Þetta varð til þess að safnið (Bogi Reynisson, hljóðmaður) í góðu samstarfi við Reyni tók hljóðið til bæna með því að fara í frumhljóðrásirnar og færa þær yfir í stafrænt form og endurhljóðblanda svo hljóðrás myndarinnar. Einnig var átt við upphaf myndarinnar (Erlendur Sveinsson) með því að búa til nýja titla og setja inn tónlist sem leikur stórt hlutverk seinna í myndinni en sem höfð er í píanóútgáfu í upphafinu í samhljómi við nýju titlana. Þá kom Reynir við sögu þegar safnið (Erlendur Sveinsson) setti inn ensku neðanmálstexta myndarinnar og endurbætti þá í leiðinni. Reynir fylgdist grant með litgreiningunni (Eggert Baldvinsson) og náði fram ýmsu sem ekki tókst á sínum tíma að ná fram sökum tíma- og fjármagnsleysis. Þetta á t.d. við um litgreiningu á dagdraumi einnar aðalpersónunnar sem fær viðgerðarmann í heimsókn, alla vega í draumnum. Þessi dagdraumur varð uppistaða listaverks sem Ragnar Kjartansson, sonur aðalleikkonunnar, Guðrúnar Ásmundsdóttur, bjó til. Sú fjölskyldugoðsögn er lífseig að hann, sonurinn, hafi komið undir í þessu atriði og kannski líka leyndardómurinn að baki þessu listaverki sem ekki er auðvelt að lýsa í orðum. Verk Ragnars var frumsýnt á Nútímalistasafninu í New York og útbjó Kvikmyndasafnið myndefnið upp úr Morðsögu fyrir sýninguna. Í tengslum við það var hin nýja gerð Morðsögu jafnframt frumsýnd á hátíðarsýningu á vegum þessa listasafns í New York og mæltist mjög vel fyrir.

MORÐSAGA OG STOFNUN KVIKMYNDASJÓÐS

Það merkilegasta við Morðsögu í framleiðslusögu íslenskrar kvikmyndagerðar er sú staðreynd að í henni felst mikilvæg heitstrenging og um leið áskorun. Reynir hitti áhrifamikinn þingmann á förnum vegi, þegar hugmyndin lá í loftinu um að stofna þyrfti Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasafn á Íslandi. Menn höfðu að vísu mátulega mikla trú á því að þetta gæti náð fram að ganga og að íslenskir kvikmyndagerðarmenn gætu risið undir slíkri sjóðsstofnun en Reynir sagðist skyldu sýna þingmanninum fram á að þetta væri hægt í öllu allsleysinu. Tækist honum það svaraði þingmaðurinn „skal ég sjá til þess að það verði stofnaður Kvikmyndasjóður með lögum frá Alþingi“. Sá örlitli stuðningur sem hann hafði úr að moða var frá svonefndum Menningarsjóði, upphæð sem hugsanlega samsvaraði handritsstyrk í dag. En heitstrengin skyldi takast og með ótrúlegri útsjónarsemi tókst Reyni að skrapa saman tækjum og fólki og hefjast handa og var þá sjálfur búinn að skrifa kvikmyndahandritið. En auðvitað hafði hann kastað sér út í djúpu laugina en þar eiga lítt syndir menn á hættu að drukkna. Og nú saup hann hveljur og svamlaði allt hvað af tók þegar peningar og tökutími var uppurinn og áformaðar tökur aðeins hálfnaðar. Leikararnir að verða uppteknir vegna næstu leiktíðar í leikhúsunum og endalok ævintýrisins blöstu við. En þá var það að Guðrún Ásmundsdóttir hvað upp úr með það ekki dyggði að leggja árar í bát, áfram skyldi haldið næsta sumar, hún og Steindór of fleiri myndu gefa eða lána vinnu sína og Reynir sjáflur taka að sér stjórn kvikmyndatökunnar á því sem eftir var að taka ásamt því að leikstýra. Hann hafði unnið við eftirvinnslu kvikmynda sinna í Svíþjóð og kynnst m.a. Jan Troel sem hafði þennan háttinn á og samhliða því kynntist hann samstarfsfólki Ingmar Bergmanns og vel á minnst Zybulski hinum mikla pólska sjarmör sem var að leika í mynd eftir Jörn Donner og Reynir kann að að segja krassandi sögur af. Þannig að Reynir mundaði myndavélina og lauk við að taka myndina að ári með sínu frábæra samstarfsfólki. Morðsaga var frumsýnd árið 1977. Ári síðar var stofnaður Kvikmyndasjóður á Íslandi.

AÐ SÍÐUSTU ÞETTA

Reynir var líka í París á sínum yngri árum á tímum nýbylgjunnar frönsku og varð fyrir áhrifum af þeim gusti í kvikmyndagerð, sem henni fylgdi, einkum hugnaðist honum myndir Claude Chabrol og hringdi í kappann til að fá leyfi til að nota smábút úr mynd hans í Morðsögu, sem var góðfúslega veitt.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hvað Morðsaga hefur fengið góðar undirtektir á Ultima Thule í Gdansk og Poznan en fréttir hafa borist Kvikmyndasafninu af viðtökunum frá starfsmanni hátíðarinnar. Vonandi getur það og Ultima Thule í heild sinni orðið upptaktur að áframhaldandi samstarfi kvikmyndasafnanna tveggja í framtíðinni. Og svo verður kominn tími á endurfrumsýningu Morðsögu hér heima þegar útrás hennar í Austurvegi lýkur.