Í minningu Eggerts Þórs Bernharðssonar

Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur, andaðist langt um aldur fram hinn 31. desember s.l. Kvikmyndasafnið og Eggert áttu samleið um langt árabil og sömuleiðis Eggert og Erlendur Sveinsson, núverandi forstöðumaður safnsins í tengslum við kvikmyndagerð hans og kvikmyndaskrif. Síðustu samskipti Eggerts og Kvikmyndasafnsins voru í sambandi við ljósmyndavæðingu bókar hans: „Sveitin í sálinni“, sem kom út fyrir síðustu jól eins og kunnugt er. Þar koma við sögu ljósmyndir bandaríska hermannsins Samuel Kadorian, sem Eggert hafði miklar mætur á en kvikmyndir Kadorian eru m.a. merkilegar fyrir þær sakir að vera með fyrstu litkvikmyndunum sem teknar voru á Íslandi.

Kvikmyndasafn Íslands vill þakka Eggerti samfylgdina með því að sýna kafla úr stríðsárakvikmynd Kadorian þar sem sveitin í Reykjavík um 1944 kemur við sögu með eftirminnilegum hætti.

Samleið Kvikmyndasafnsins og Eggerts Þórs Bernharðssonar liggur langt aftur í tímann. Eggert hvatti Erlend Sveinsson til að taka saman yfirlit fyrir Nýja sögu um kvikmyndatökur fyrstu tvo áratugina á Íslandi þar sem fram kæmi hvaða myndir hefðu varðveist og hvaða myndir glatast. Hann efndi til hringborðsumræðna um miðlun sögunnar í kvikmyndaformi þar sem m.a. lágu til grundvallar Verstöðin Ísland eftir Erlend og verk Eggerts sjálfs og Flateyjarmynd Helga Þorlákssonar. Afrakstur þessarar samræðu birtist í Nýrri sögu. Einnig vakti hann athygli á kvikmyndaskrifum og sögulegum heimildarkvikmyndum Erlends Sveinssonar, núverandi forstöðumanns safnsins í kennslu sinni og minnist Erlendur þess að hafa mætt í tíma til Eggerts til að standa fyrir svörum hans og nemenda hans.

Eggert sótti sér heimildir til Kvikmyndasafnsins í tíð Böðvars Bjarka Péturssonar, forstöðumanns þegar hann skrifaði um upphaf íslenskrar kvikmyndasögu fyrir ritið „Heimur kvikmyndanna“ og hann beitti sér fyrir því að Þórarinn Guðnason, sem seinna varð forstöðumaður safnsins fjallaði um fágætar ljósmyndir Samuel Kadorian frá Íslandi sem birt var í tímaritinu Sögu árið 2008 og sjálfur skrifaði Eggert að beiðni safnsins yfirlitsgrein yfir 30 ára sögu Kvikmyndasafnsins í afmælisrit þess það ár.

Hér má sjá brot af þeim ljósmyndum sem um ræðir:

Í minningu Eggerts Þórs Bernharðssonar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *