Erlendur Sveinsson ráðinn forstöðumaður Kvikmyndasafnsins.

Erlendur Sveinsson hefur verið skipaður forstöðumaður Kvikmyndasafnsins Íslands til næstu 5 ára frá og með 1. október 2014. Erlendur hefur gegnt þessu starfi undanfarin tvö ár sem settur forstöðumaður auk þess sem hann var eini starfsmaður safnsins og þar með forstöðumaður þess fyrstu 7 árin frá 1979 að telja en þá í 50% starfi. Hann starfaði síðan á gólfinu að ýmsum verkefnum fyrir safnið á árunum 2002 – 12 einnig í 50% starfi enda skiptur á milli kvikmyndagerðar og safnastarfs. Að sögn Erlends stendur Kvikmyndasafnið á tímamótum þar sem þrjú höfuðverkefni munu móta stefnuna: 1) Að mæta nýjum kröfum og verklagi vegna umbreytingar kvikmyndaiðnaðarins yfir í stafrænt form 2) Að finna nútímalegar leiðir fyrir miðlun safnskostsins svo þjóðin öll geti notið hans 3) Að tryggja að ungt fólk verði komið til starfa hjá safninu og í stakk búið að halda merkinu á lofti þegar eldri starfsmenn þess láta af störfum.

Hann undirstrikar að brýnt sé að efla vitund þjóðarinnar og ráðamanna hennar fyrir því að Kvikmyndasafn Íslands er sú stofnun í hennar eigu sem er ætlað það viðamikla verkefni að varðveita og miðla arfleifð hennar í lifandi myndum. Það er gríðarlega stórt viðfangsefni á góðu pari með verkefnum höfuðsafna landsins.

Ljósmyndin er tekin af Stefáni Karlssyni ljósmyndara Fréttablaðsins og birt með góðfúslegu leyfi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *