Fréttatilkynning vegna Bæjarbíós

08.05.2014

Í tilefni af frétt á vísir.is um málefni Kvikmyndasafns Íslands og Hafnarfjarðarbæjar/Bæjarbíós er rétt að eftirfarandi komi fram:

Í drögum að samningi um áframhaldandi starfsemi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói sem lágu fyrir í janúar sl. var að finna áætlanir bæði um aukið sýningarhald á vegum safnsins í Bæjarbíói á næstu árum, sem og aukna aðra starfsemi í húsinu, s.s. tónlistarflutning o.fl. Í þeim samningsdrögum var gert ráð fyrir að Kvikmyndasafnið stjórnaði áfram starfsemi í húsinu og gæti þannig verndað húsið og varið þann búnað og tæki sem það hefur komið þar upp. Í drögunum var gerð tillaga um að skipað yrði bíóráð sem m.a. sætu í fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, sem styddi safnið við að auka aðra starfsemi í húsinu og við að efla eigið sýningarstarf. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði lýst yfir stuðningi við þessar hugmyndir um eflingu starfsemi á vegum safnsins í Bæjarbíói (Sjá samningsdrögin sem hér um ræðir á heimasíðu Kvikmyndasafnsins: hér). Hafnarfjarðarbær hafnaði hins vegar ofangreindum samningsdrögum án frekara samráðs við ráðuneytið eða safnið, og kaus að fara þá leið sem nú hefur verið valin, þ.e. að fela utanaðkomandi rekstraraðila umsjón með starfsemi í Bæjarbíói fremur en Kvikmyndasafni Íslands.

Þær viðræður sem nú standa yfir milli ráðuneytisins og bæjarins fjalla um hvort hægt er sé að tryggja hagsmuni Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói með viðunandi hætti þrátt fyrir þessar breytingar. Náist ekki samkomulag þar að lútandi, sem ráðuneytið telur ásættanlegt, er ljóst að sýningarstarfi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói mun ljúka að sinni, a.m.k. að óbreyttu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *