Kvikmyndasýning í Bæjarbíói

STRÍÐ OG FRIÐUR

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Stríð og friður.

1. - 4. Hluti

Kvikmyndin Stríð og friður er sannarlega eitt af stórvirkjum kvikmyndasögunnar. Það er sjaldgæft að hún fáist sýnd og það er Kvikmyndasafni Íslands mikill heiður að geta boðið upp á sýningu á myndinni óstyttri í 4 hlutum dagana 29. apríl til 2. maí. Sýningin markar einnig tímamót í sögu safnsins þar sem þetta er síðasta sýning á Rússneskum vetri en einnig síðustu sýningar safnsins í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Hér er því um endalok á tímabili að ræða, en einnig ný byrjun í sögu Kvikmyndasafnsins.

1. Hluti: Andrei Bokonsky
2. Hluti: Natasha Rostova
3. Hluti: Árið 1812
4. Hluti: Pierre Bezukhov

Sýnd þriðjudag 29. apr kl: 20.00
Sýnd miðvikudag 30. apr kl: 20.00
Sýnd föstudag 2. maí kl: 20.00
Sýnd laugardag 3. maí kl: 16.00

Enskt tal (talsett)
Enskt tal (talsett)
Rússneskt tal, neðanmálstexti á ensku
Rússneskt tal, neðanmálstexti á ensku

SOVÉTRÍKIN, 1966 -1967
Enskt tal (talsett) og rússneskt tal með enskum neðanmálstextum
FILMA 35mm (1. og 2. hluti) og stafræn sýning (3. og 4. hluti), litur

Leikstjórn: Sergei Bondartsjúk

Kvikmyndataka: Anatolí Petritskj

Fróðleiksmolar:

Árið 1960 buðu nokkrir kvikmyndaleik-stjórar fram krafta sína til að stjórna tökum á Stríði og friði, þeirra á meðal Mikhaíl Romm og Sergei Gerasimov. En það var Ívan Pyrjev, einn af leikstjórum Karamazov-bræðranna, sem virtist sigurstranglegur. Bondartsjúk var hins vegar kjörinn til verksins, án þess að hann hefði sóst eftir því og var nýgræðingur í greininni. Khrútsjov stjórnin þóttist sjá í honum nýja kynslóð kvikmyndagerðarmanna og ástæðu til að ýta eldri kynslóðinni til hliðar.

Ýmsir vestrænir fjölmiðlar hafa haldið því fram að fjöldi hermanna sem tóku þátt í tökum Stríðs og friðar hafi verið hátt í 120 þúsund. Þegar Bondartsjúk var spurður út í þetta í viðtali sem National Geographic átti við hann árið 1986 svaraði hann því til að þetta væru ýkjur. Hann hefði haft 12 þúsund hermenn til ráðstöfunar. Gert var ráð fyrir að þeir yfirgæfu tökustað eftir 13 daga en það dróst hins vegar í 3 mánuði.

7. júlí 1964 eftir tökur í Leníngrad var Bondartsjúk óvænt fyrirskipað af yfirboðurum sínum að ýta öllu til hliðar, þegar vinnunni við myndina var langt í frá lokið, til að geta lokið við fyrstu tvo hlutana fyrir kvikmyndahátíðina í Moskvu. Þá gerðist það að Bondartsjúk fékk hjartaslag og var um skeið úrskurðaður læknisfræðilega dauður. Það fyrsta sem hann sagði þegar hann náði meðvitund var: „Ef ég dey, látið Gerasimov ljúka verkinu“. Kvikmyndatöku var þá frestað fram í september. Þetta endurtók sig ári síðar þegar fyrstu tveir hlutarnir voru frumsýndir en aftur hafði meistarinn sigur.

Dmitri_Shostakovich

Samskipti Sovétríkjanna og Íslands í kvikmyndum IV

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Nokkrar stuttar myndir sem varða samskipti Íslands og Sovétríkjanna.

SKOÐUNARFERРUM KREML

Höf. F. Tjapkín

Sovétríkin, ártal óvíst
FILMA 35mm, litur 25:00 mín

Tónskáldið Sjostakovítsj

Stj.: A. Sokurov

Sovétríkin, 1976

FILMA 35mm, sv/hv 16:30 mín

HLJÓMFALL OG LITIR ARMENÍU

Stjórnandi óþekktur

Sovétríkin, ártal óvíst
FILMA 35mm, litur 20:00 mín

ÁHRIF DAGBLAÐSINS PRÖVDU

Stj.: Irina Zjúkovskaja

Sovétríkin, ártal óvíst
FILMA 16mm sk, s/h  20:00 mín

VLADIMIR MAJAKOVSKY

Stj.: Tsjivasjenka

Sovétríkin, 1986
FILMA 16mm sk, s/h 10:05 mín

FRÁ SANKTI PÉTURSBORG TIL LENÍNGRAD

Stj. Óþekktur

Sovétríkin, 1987
FILMA 35mm sk, s/h 15:42 mín

MÓÐIRIN (1926) • Vsevolod Púdovkin

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Móðirin segir sögu 1905 byltingarinnar með því að draga upp dramatíska mynd af lítilli kjarnafjölskyldu. Í byrjun myndarinnar er sonurinn, Pavel, að hjálpa til við að skipuleggja fyrirhugað verkfall. Faðir hans, spilltur fylliraftur, hefur aftur á móti gengið í flokk hrotta sem hafa verið leigðir til þess að hindra að verkfallið nái fram að ganga. Móðirin, döpur og trúuð eiginkona og móðir, er eins og hengd upp á þráð á milli sonar síns og eiginmanns. Þegar til verkfallsins kemur verður eiginmaðurinn skotinn og sonurinn dæmdur í þrælkunarbúðir. Móðurinni misbýður freklega þessi ákvörðun réttarins og fyrr en varir ummyndast þetta peð í valdabaráttunni í hetju og píslarvott byltingar sem vopn valdsins sölluðu niður að þessu sinni.

Móðirin er í sýningu í Bæjarbíói Hafnarfirði.

Þriðjudag 1. apríl kl: 20.00 og laugardaginn 5. apríl kl 16.00

Aðgangseyrir KR. 500-

SOVÉTRÍKIN, 1926

Sýningartími: 73 mín

Enskir millitextar

FILMA 35mm, svart/hvít

Aðalhlutverk:

Vera Baranovskaja,

Nikolai Batalov, Aleksandr Tsjistjakov

Leikstjórn:  Vsevolod Púdovkin 

Kvikmyndataka: Anatolí Golovnja

Halldór

Samskipti Íslands og Sovétríkjanna III • Magnús Jónsson

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Magnús Jónsson, kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri (1938 – 1979), er þungamiðja þriðju syrpu Rússneska vetrarins um samskipti Sovétríkjanna og Íslands í kvikmyndum. Magnús er fyrsti Íslendingurinn sem fór til náms í kvikmyndagerð í Sovétríkjunum en aðrir sem fylgdu fljótlega í kjölfar Magnúsar voru Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, og Haraldur Friðriksson, kvikmyndatökumaður. Magnús lagði áherslu á heimildarmyndagerð og komst í læri hjá frægum meistara á því sviði, Roman Karmen (1906 – 1978). Karmen þessi, sem var bæði stríðskvikmyndatökumaður og leikstjóri, er sagður hafa verið áhrifamesti heimildarmyndagerðarmaður Sovétríkjanna um sína daga og honum stundum jafnað við Leni Riefensthal þegar fjallað var um áhrifamátt mynda hans. Magnús lauk námi sínu árið 1965 og hafði þá kynnst fyrri konu sinni Alexöndru Kjuregej, sovéskri leikkonu frá Síberíu, og eignuðust þau fjögur börn, þeirra á meðal Ara Alexander Ergis, kvikmyndagerðarmann. Seinni kona Magnúsar var Renata Kristjánsdóttir frá Akureyri.

Að námi loknu vann Magnús að kvikmyndagerð og leikstjórn í Reykjavík og skrifaði fyrstu meiri háttar verk sín, Leikritið um frjálst framtak Steinars Ólafssonar í veröldinni, Ég er afi minn og Skeggjaður engill. Hann spreytti sig einnig á blaðamennsku og ritstjórn og vann t.d. um skeið á Þjóðviljanum og átti þátt í endurreisn Spegilsins. Hann náði að gera tvær kvikmyndir hér heima áður en hann andaðist langt fyrir aldur fram, aðeins 41 árs gamall. Þetta eru myndirnar 240 fiskar fyrir kú (1972) og Ern eftir aldri (1975). Sú fyrri er gerð í tilefni af útfærslu landhelginnar í 50 mílur og fjallar um það hve lífsafkoma Íslendinga er háð fiskveiðum og verndun fiskimiðanna í kringum landið. Ernst Kettler tók myndina og Jón Múli Árnason er þulur. Myndin hefur m.a. að geyma teiknimyndakafla sem sýnir glöggt skopskyn Magnúsar. Myndin var innlegg í landhelgisdeiluna og var sýnd víða hérlendis og einnig erlendis í enskri útgáfu. Í þrjár vikur var hún aukamynd í Laugarásbíói. Hún var frumsýnd í sjónvarpinu í mars árið 1974. Skopið er heldur ekki langt undan í seinni myndinni, Ern eftir aldrei, sem skírskotar til ástands þjóðarlíkamans á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og tengist þannig fyrri sýningum Rússneska vertrarins af þessum sömu þjóðhátíðarhöldum. Um 30 árum seinna var samið samnefnt dansleikhúsverk, sem var innblásið af mynd Magnúsar og sýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ern eftir aldri byrjar á þjóðhátíðinni 1974 en spurning myndarinnar, sem fleytir henni í ýmsar áttir, er þessi: Hver er þessi þjóð og hvað sameinar hana? Ýmsir eru spurðir og svörin jafnmörg og viðmælendur. Bryndís Schram birtist sem Fjallkona Íslands og ímynd þjóðarlíkamans og rómar ágæti hans á meðan Böðvar Guðmndsson syngur háðsvísur um ágæti ameríska hersins, verndarann. Ern eftir aldri var gerð með sjónvarpssýningu í huga en var með hvassri, skoplegri ádeilu. Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, átti samtal við Magnús eftir frumsýningu myndarinnar í Laugarásbíói. Í umsögn sinni um myndina á undan samtalinu skrifar Þorsteinn um kosti hennar. Hún sé „líkleg til að vekja efasemdir hjá mörgu fólki um títtnefnd hátíðarhöld og innihald þeirra. Auk þess er hún ágæt skemmtun á köflum og hugmyndin skemmtileg. Mest er þó um vert að hún er mótvægi við hina hefðbundnu hól- og blablaaðferð í íslenskum kvikmyndum og sjónvarpi“. Fram kemur að Magnús hafi tekið að sér að gera tvær myndir fyrir sjónvarpið, aðra skv. hugmynd þess en hina skv. eigin hugmynd. Sú mynd, sem fékk titilinn Ern eftir aldri, hafi hins vegar ekki fengist sýnd í sjónvarpinu þegar til átti að taka. Þetta var á þeim árum þegar ekki blés byrlega fyrir þróun íslenskrar kvikmyndagerðar. Fram kemur í samtalinu að Magnús telur að tvennt þurfi að koma til henni til bjargar: Stofna þurfi kvikmyndasjóð og skipta út yfirstjórn sjónvarpsins.

Upp frá þessu gaf Magnús sig að leiklist og réðist til starfa hjá Leikfélagi Akureyrar, þar sem hann varð fyrsti leikstjóri félagsins eftir að það varð atvinnuleikhús. Tveimur árum síðar söðlaði hann um og fór að nema sálfræði við Háskóla Íslands og hélt síðan til framhaldsnáms vestur til Bandaríkjanna. Þegar hann átti aðeins herslumun eftir til að geta lokið náminu fékk hann hjartaslag og andaðist aðeins 41 árs gamall. Hann hafði skömmu áður fengið kransæðastíflu og raunar barist við heilsuleysi drjúgan part ævi sinnar. Andlát þessa listamanns, lífskúnstners og fagurkera, bar upp á sama tíma og tók að vora í íslenskri kvikmyndagerð með stofnun Kvikmyndasjóðs.

Þessi þriðja sýningarsyrpa, sem tengir saman Ísland og Sovétríkin, hefst á því að við sjáum Magnúsi bregða fyrir í sjónvarpsviðtali frá því um miðjan áttunda áratuginn og einnig í mynd skólabróður síns Júríj Salnikovs Kynni af Íslandi frá 1967 (sýnd fyrr í vetur). Nefndar heimildarmyndir Magnúsar mynda kjarna sýningarinnar en tvær heimsóknarmyndir til Sovétríkjanna frá þessu sama tímabili fylla upp í heildarmyndina.

The-Sacrifice-7193_6

Fórnin

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments
Í morgunsár „þriðju heimsstyrjaldarinnar“ leitar maður nokkur leiða til að koma á friði í heiminum en uppgötvar að hann verður að láta eitthvað af hendi í staðinn. Dan Schneider skrifar: „Að horfa á lokaverk Tarkovskys, Fórnina, er prófraun í kvikmyndáhorfi. Ekki vegna þess að Fórnin sé stórbrotinn kvikmynd, heldur vegna þess að hún er með stór augnablik samofin hreinum leiðindum“. Í rauninni sé Fórnin ein þessara sjaldgæfu kvikmynda sem skautar á milli þess sem er gott og slæmt í þessu listformi. Engu að síður er hún vel þess virði að horft sé á hana. Það kemur þá kannski í ljós hvort það sé rétt sem sagt hefur verið um tengsl efnisins við málverk Leonardo da Vincis Gjafir vitringanna. 
Guðrún Gísladóttir lék hlutverk í myndinni og ætlar að heiðra sýningargesti með nærveru sinni og segja nokkur orð á sýningu myndarinnar þriðjudaginn 18 feb
SVÍÞJÓÐ 1986
Sýningartími: 145 mín
Enskur neðanmálstexti
FILMA 35mm, litur
Aðalhlutverk: Erland Josephson, Susan Fleetwood, Allan Edwall og Guðrún Gísladóttir
Kvikmyndataka: Sven Nykvist

 

Sergey Lazo_jpg

Sergei LAZO

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Sergei Lazo, sem einnig gengur undir heitinu Samsærið við Vladivostok, fjallar um Sergey Lazo sem varð einn af helstu leiðtogum hers bolsévika í byltingunni 1917. Hann barðist síðan í Síberíu gegn innrásarherjum. Í janúar 1920 lögðu bolsévikar Vladiwostok undir sig en í apríl það sama ár hvarf Lazo og er talið að hvítliðar, Japanir og Kósakkar, hafi drepið hann. Á áhrifamikinn hátt rekur myndin helstu atburði þessa tímabils í lífi hans.

Í Austur-Síberíu eru algeng staðarheiti nefnd í höfuðið á Lazo t.d. Lazovski-sýsla og um nokkurra áratuga skeið hét borgin Singerei í Moldavíu, fæðingarlandi hans, Lazovsk.

Andrei Tarkovsky skrifaði við annan mann handritið að myndinni og ef vel er að gáð má sjá hann í litlu hlutverki sem liðsforingjann Botsjkarev.

 

SOVÉTRÍKIN, 1968
Sýningartími: 88 mín
Enskur neðanmálstexti
FILMA 16mm sk, svart/hvít
Leikstjórn: Aleksandr Gordon
Handrit: Andrei Tarkovsky
Kvikmyndataka: Vadim Jakovlev
Aðalhlutverk:
Regimantas Adomaitis,
Júri Dubrovin
Tatjana Makhova

4 kvikmyndir þar sem Tarkovsky gegnir lykilhlutverki.

Tarkovsky mánuður í Bæjarbíói.

odin shans

EINN MÖGULEIKI AF ÞÚSUND

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Kvikmyndin lýsir spaugilegum atburðum sem áttu sér stað á Krímskaga á hernámsárum Þjóðverja í heimstyrjöldinni síðari. Rússar hugðust stela skjölum frá andstæðingum sínum og brugðu á kostuleg ráð.
Andrei Tarkovsky var ráðgefandi bæði við handritsgerð myndarinnar auk þess að vera listrænn stjórnandi hennar. Leikaravalið ber þess vitni því Nikolay Grinko, sem lék í öllum kvikmyndum Tarkovskys sem hann gerði í Rússlandi, er þarna í einu aðalhlutverkanna. Samstarf þeirra náði allt aftur til myndarinnar Æska Ívans (1962). Anatolí Solonitsyn er í litlu hlutverki en hann er einkum þekktur á Vesturlöndum fyrir leik sinn í myndum Tarkovskys. Báðir léku í Solaris sem verður á dagskrá safnsins síðar í mánuðinum.

Leikstjórn: Leonid Kotsarjan
Handrit: Andrei Tarkovsky

SOVÉTRÍKIN, 1969
Sýningartími: 81 mín
Enskt tal (talsett)
FILMA 35mm, litur
Leikstjórn: Leonid Kotsarjan
Handrit: Andrei Tarkovsky
Aðalhlutverk: Aleksandr Fadejev,
Nikolaj Grinko
Kvikmyndataka: Vadim Avloshenko
brautarstod copy

Brautarstöð fyrir tvo

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Píanóleikarinn Platon Rjabinin er á ferðalagi með lest til bæjarins Griboedov til að heimsækja föður sinn. Hann fer úr lestinni á Zastupinsk brautarstöðinni til að fá sér hádegisverð meðan á 20 mínútna stoppi stendur. Þarna hittir hann framreiðslustúlkuna Veru, sem hann neitar að borga af því að maturinn, sem hann hefur ekki snert, er svo vondur. Fyrir vikið missir hann af lestinni eftir að kærasti Veru og lögreglan blandar sér í málið. Vandræðin hrannast upp en í ljós kemur að hann á yfir höfði sér dóm fyrir atvik sem hann er saklaus af. En þá daga sem hann er strandaglópur gerist eitthvað á milli þeirra Veru.

SOVÉTRÍKIN, 1982
Sýningartími: 141 mín
Enskur neðanmálstexti
FILMA 35mm, litur
Leikstjórn: Eldar Rjazanov
Aðalleikarar: Ljúdmila Gúrtsjenko, Oleg Bashilasvhili
Kvikmyndadaka: Vadim Alisov
Astarsaga

Ástarsaga úr stríðinu.

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Ungur hermaður hrífst af ungri konu herforingja á vígstöðvunum. Nokkrum árum eftir stríðslok rekst hann á konuna af tilviljun úti á förnum vegi og þau endurvekja kynni sín. Hún er þá orðin ekkja og hefur fyrir dóttur að sjá. Hann reynir að hjálpa henni en er giftur og eiginkonan ekki skilningsrík í garð ekkjunnar.

SOVÉTRÍKIN, 1983
Sýningartími: 92 mín
Enskur neðanmálstexti
FILMA 35mm, litur
Leikstjóri:Pjotr Todorovskíj
Aðalhlutverk: Nikolaj Burljaev, Natalja
Andreitsjenko
Kvikmyndataka: Valeri Blinov

tulpan1 copy

TÚLÍPANI

Posted by | Kvikmyndasýning í Bæjarbíói | No Comments

Asa býr í tjaldbúð á fjarlægri steppu í Kazakhstan með systur sinni Samal, bónda hennar Ondas og þremur börnum þeirra. Hann lætur sig dreyma um að verða hirðingi með sína eigin hjörð og fjölskyldu en áður verður hann að finna sér kvonfang. Asa vonast til að geta gifst Tulpan, dóttur nágrannafjölskyldu og einu konunni sem er gjafvaxta í hundrað mílna radíus. Foreldrar hennar hafa hins vegar lítinn áhuga á að gifta dóttur sína atvinnulausum ónytjungi með ótrygga framtíð og það sem verra er,Tulpan virðist heldur ekki vera ýkja áhugasöm. Vinur Asa, Boni, styður hann á alla lund, en vill sjálfur komast burt í þéttbýlið. Myndin hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna.

KAZAKHSTAN, 2008 Sýningartími: 100 mín Enskur neðanmálstexti DVD, litur
Leikstjóri: Sergei Dvortsevoy

Aðalleikarar: Askhat Kuchinchirekov, Samal Jeslyamova og Ondasyn Besikbasov

Kvikmyndataka: Jola Dylewska PSC

Myndin er sýnd í Bæjarbíói Hafnarfirði

Túlípani – Tulpan

 Þri 19. nóv kl. 20.00 og Lau 23. nóv kl. 16.00

Aðgangseyrir 500 kr.