Uncategorized

innblað

Erlendur Sveinsson ráðinn forstöðumaður Kvikmyndasafnsins.

Posted by | Uncategorized | No Comments

Erlendur Sveinsson hefur verið skipaður forstöðumaður Kvikmyndasafnsins Íslands til næstu 5 ára frá og með 1. október 2014. Erlendur hefur gegnt þessu starfi undanfarin tvö ár sem settur forstöðumaður auk þess sem hann var eini starfsmaður safnsins og þar með forstöðumaður þess fyrstu 7 árin frá 1979 að telja en þá í 50% starfi. Hann starfaði síðan á gólfinu að ýmsum verkefnum fyrir safnið á árunum 2002 – 12 einnig í 50% starfi enda skiptur á milli kvikmyndagerðar og safnastarfs. Að sögn Erlends stendur Kvikmyndasafnið á tímamótum þar sem þrjú höfuðverkefni munu móta stefnuna: 1) Að mæta nýjum kröfum og verklagi vegna umbreytingar kvikmyndaiðnaðarins yfir í stafrænt form 2) Að finna nútímalegar leiðir fyrir miðlun safnskostsins svo þjóðin öll geti notið hans 3) Að tryggja að ungt fólk verði komið til starfa hjá safninu og í stakk búið að halda merkinu á lofti þegar eldri starfsmenn þess láta af störfum.

Hann undirstrikar að brýnt sé að efla vitund þjóðarinnar og ráðamanna hennar fyrir því að Kvikmyndasafn Íslands er sú stofnun í hennar eigu sem er ætlað það viðamikla verkefni að varðveita og miðla arfleifð hennar í lifandi myndum. Það er gríðarlega stórt viðfangsefni á góðu pari með verkefnum höfuðsafna landsins.

Ljósmyndin er tekin af Stefáni Karlssyni ljósmyndara Fréttablaðsins og birt með góðfúslegu leyfi.

Fréttatilkynning vegna Bæjarbíós

Posted by | Uncategorized | No Comments

08.05.2014

Í tilefni af frétt á vísir.is um málefni Kvikmyndasafns Íslands og Hafnarfjarðarbæjar/Bæjarbíós er rétt að eftirfarandi komi fram:

Í drögum að samningi um áframhaldandi starfsemi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói sem lágu fyrir í janúar sl. var að finna áætlanir bæði um aukið sýningarhald á vegum safnsins í Bæjarbíói á næstu árum, sem og aukna aðra starfsemi í húsinu, s.s. tónlistarflutning o.fl. Í þeim samningsdrögum var gert ráð fyrir að Kvikmyndasafnið stjórnaði áfram starfsemi í húsinu og gæti þannig verndað húsið og varið þann búnað og tæki sem það hefur komið þar upp. Í drögunum var gerð tillaga um að skipað yrði bíóráð sem m.a. sætu í fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, sem styddi safnið við að auka aðra starfsemi í húsinu og við að efla eigið sýningarstarf. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði lýst yfir stuðningi við þessar hugmyndir um eflingu starfsemi á vegum safnsins í Bæjarbíói (Sjá samningsdrögin sem hér um ræðir á heimasíðu Kvikmyndasafnsins: hér). Hafnarfjarðarbær hafnaði hins vegar ofangreindum samningsdrögum án frekara samráðs við ráðuneytið eða safnið, og kaus að fara þá leið sem nú hefur verið valin, þ.e. að fela utanaðkomandi rekstraraðila umsjón með starfsemi í Bæjarbíói fremur en Kvikmyndasafni Íslands.

Þær viðræður sem nú standa yfir milli ráðuneytisins og bæjarins fjalla um hvort hægt er sé að tryggja hagsmuni Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói með viðunandi hætti þrátt fyrir þessar breytingar. Náist ekki samkomulag þar að lútandi, sem ráðuneytið telur ásættanlegt, er ljóst að sýningarstarfi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói mun ljúka að sinni, a.m.k. að óbreyttu.

Uppgangan

Posted by | Uncategorized | No Comments

Sögusviðið er heimsstyrjöldin síðari. Skæruliðarnir Sotnikov og Rybak leggja í ferð langt inn á óvinasvæði í leit að vistum fyrir sveltandi félaga sína. Ferðalagið reynir ekki síður á andlegt atgervi þeirra en líkamsburði. Og það veltir upp ýmsum spurningum um samskipti, heiðarleika og frelsið. Inntak myndarinnar vísar til píslargöngu Krists og svika Júdasar og er því vel viðeigandi íhugunarefni í dymbilviku. Kvikmyndatakan er eftirtektarverð, falleg og áhrifarík.

Leikstjórn: Larisa Sjepitko

SOVÉTRÍKIN, 1977

Sýningartími: 111 mín

Enskur neðanmálstexti 

FILMA 35mm, svart/hvít

Aðalhlutverk: Boris Plotnikov,

Vladimir Gostjukhin

Kvikmyndataka: Vladimir Tsjukhnov

og Pavel Lebeshev

Myndin er sýnd í Bæjarbíói Hafnarfirði

Uppgangan

Larisa Sjepitko

Þriðjudagur 15. Apr kl. 20.00

Ath aðeins ein sýning.  500 kr aðgangseyrir

Rúslan og Ljúdmila.

Posted by | Uncategorized | No Comments

Kvikmynd byggð á frægu samnefndu skáldverki Aleksandrs Púsjkin, sem leiðir okkur inn í heim ævintýra, þar sem söguhetjurnar eru umkringdar góðum og illum öflum. Aðalpersónan er Ljúdmila, dóttir Vladimírs fursta í Konungsgarði, en hún er numin á brott rétt áður en halda á brúðkaup hennar og Rúslans. Þar sem Rúslan gat ekki komið í veg fyrir brottnám Ljúdmilu ákveður furstinn að hver sá sem náð geti dóttur sinni aftur í heimahús megi kvænast henni. Rúslan heldur því til leitar að stúlkunni, ásamt tveimur öðrum keppinautum,  og greinir sagnaljóðið frá þeirri leit hans og margvíslegum ævintýrum sem hann lendir í.

SOVÉTRÍKIN, 1972

Sýningartími: 150 mín

Enskt tal (talsett að hluta)

FILMA 35mm, litur

Leikstjórn:

Aleksandr Ptushko

Aðalhlutverk:

Valerí Kozinets og

Natalja Petrova

RÚSLAN OG LJÚDMÍLA

Aleksandr Ptushko

 

Myndin er sýnd í Bæjarbíói Hafnarfirði

Þriðjudagur 8. Apr kl. 20.00 og Lau 12. apr kl. 16.00

Aðgangseyrir 500kr.
DosSolaris

SOLARIS

Posted by | Uncategorized | No Comments

Solaris er íhugult sálfræðidrama sem gerist að mestu um borð í geimstöð á braut umhverfis hina uppdiktuðu plánetu Solaris. Það hefur fjarað undan vísindaleiðangrinum vegna þess að þrír leiðangursmanna eiga í tilfinningalegri krísu. Sálfræðingurinn Kris Kelvin ferðast til Solaris geimstöðvarinnar til að leggja mat á ástandið einungis til að standa frammi fyrir sama dularfulla fyrirbærinu og hinir um borð. Líkt og í Fórninni þá tekur Solaris mið af málverkum en að þessu sinni eftir Pieter Bruegel. Solaris vann til verðlauna í Cannes 1972 og er oft sögð ein af mikilfenglegustu vísindaskáldsögumyndum í sögu kvikmyndatökunnar.

Leikstjórn:

Andrei Tarkovsky

SOVÉTRÍKIN, 1972
Sýningartími: 115 mín
Enskt tal (talsett á ensku.)
FILMA 35mm, litur
Aðalhlutverk: Natalja Bondartsjúk, Donatas Banionis og Jüri Järvet
Kvikmyndataka: Vadim Jusov
Tónlist: Johann Sebastian Bach og Eduard Artemjev

Samskipti Sovétríkjanna og Íslands í kvikmyndum. II

Posted by | Uncategorized | No Comments

Önnur syrpan sem tengir saman Ísland og Sovétríkin í kvikmyndum hefur að geyma þrjár myndir frá 1974 og tvær frá árunum 1986 – 87

ÞJÓÐHÁTÍÐ Á ÞINGVÖLLUM 1974

ÞJÓÐHÁTÍÐ Á ÞINGVÖLLUM 1974

Gísli Gestsson

Þjóðhátíðarkaflinn á Þingvöllum í Niðjum Ingólfs varð til þess að haft var samband við Gísla Gestsson (Veiðiferðin (1980)) til að inna hann eftir afdrifum kvikmyndaefnis sem hann hafði tekið á CinemaScope 35mm filmu á þessari hátíð. Það kom á daginn að fjármögnunin hafði brugðist á síðustu stundu en Gísli ekki verið tilbúinn að gefa áform sín upp á bátinn eftir að hafa pantað til landsins upptökutæki og filmur. Því hafi hann á eiginn kostnað tekið svipmyndir á hátíðinni og einnig vítt og breitt um landið. Honum tókst að fá efnið framkallað en síðan ekki söguna meir. Nema hvað hann sýndi formanni og framkvæmdastjóra hátíðarnefndarinnar óklippt efnið í Laugarásbíói og nokkru síðar vini sínum Ridley Scott sem þá var kominn til landsins að athuga með tökustaði fyrir fyrirhugaða kvikmynd um Tristan og Isolde. Kannski er samhengi á milli Tristans og Promotheusar Scotts, sem kvikmynduð var á Íslandi 2012, sem og fyrirhugaðrar framleiðslu Scotts á bíómynd um leiðtogafundinn í Reykjavík 1986.
Gísli gerði nú átak í að finna þjóðhátíðarfilmur sínar. Fyrst komu litlausar vinnukópíur í leitirnar en síðan negatífurnar sem höfðu varðveitt í sér litinn. Þær voru skannaðar, efnið klippt og útbúið til sýningar eins og um þögla mynd væri að ræða með millitextum og píanótónlist. Preludíur Sjostakovítsj urðu fyrir valinu, leiknar af Tatjönu Nikolajevu sem svo skemmtilega vill til að kom til Íslands fyrir löngu að leika á tónleikum í boði MÍR. Hér verður því um einskonar frumsýningu að ræða. Til að hnýta endahnútinn á þessa sérkennilegu atburðarás þá upplýsti Gísli að hann hefði ungur búið í nágrenni við MÍR salinn í Þingholtsstræti 27 og oftsinnis sótt þangað kvikmyndasýningar með þeim afleiðingum að hann smitaðist af kvikmyndabakteríunni og hefur ekki læknast af henni síðan.
Á sýningunni verða einnig sýndar myndirnar: : Niðjar Ingólfs (Ívan Galín,1975), Íslendingar í Moskvu (Óþekktur stjórnandi, 1974), Erfiðar viðræður í Reykjavík (V. Konovalov, 1986) og Steingrímur Hermannson í Moskvu (N. Solovjova, 1987).

Ivan_grimmi

Ívan grimmi

Posted by | Uncategorized | No Comments

Júríj Grigorovítsj er sömuleiðis danshöfundur ballettsins Ívan grimmi en tónlistina vann tónskáldið Mikhaíl Tsjulaki upp úr tónlist samnefndrar kvikmyndarinnar eftir Sergei M. Eisenstein. Ballettmynd þessi segir frá lífi Ívans grimma, sem uppi var á 16. öld og varð fyrstur til að verða krýndur keisari alls Rússlands, og hatrammlegri baráttu hans við valdagráðuga aðalsmenn.

 

SOVÉTRÍKIN, 1976
Sýningartími: 91 mín
Útg. efnisúrdráttur á íslensku
FILMA 35mm, litur
Aðaldansarar: Júríj Vladimirov, Boris Akimov
Kvikmyndataka: Vadim Derbenyov
Tónlist: Sergei Prokofiev
Spartakus

Spartakus

Posted by | Uncategorized | No Comments

Hinn margrómaði rússneski dansari, danshöfundur og fyrrverandi stjórnandi Bolshoi ballettsins í Moskvu, Júríj Grigorovítsj, samdi þennan ballett við tónlist Arams Khatsjatúrjans. Sagan fjallar um vitundarvakningu bardagaþrælsins Spartakusar og konu hans Frygíu. Spartakus safnar liði og leiðir þrælauppreisnina gegn hershöfðingjanum Krassusi og ofríki hans. Þrátt fyrir hetjulega baráttu verður hann að lokum að lúta í lægra haldi fyrir ofurefli rómverska hersins.

SOVÉTRÍKIN 1977
Sýningartími: 95 mín
Útg. efnisúrdráttur á íslensku
FILMA 35mm, litur
Aðaldansarar: Vladimir Vasilev og Maris Liepa
Kvikmyndataka: Vadim Derbenjov
Tónlist: Aram Khatsjatúrjan
neok_pjesa

Ófullgert verk fyrir sjálfspilandi píanó.

Posted by | Uncategorized | No Comments

Platónov eftir Anton Tsjekhov liggur til grundvallar myndinni en viðfangsefnið er, eins og í mörgum verkum Tsjekhovs, örvænting og tilgangsleysi í lífi rússneskrar millistéttar um aldamótin 1900. Fjölskylda og vinir Önnu Petrovnu koma saman á sveitasetri ekkjunnar. Undir stofuleikjum og innantómu tali um réttindi kvenna og getu bændastéttarinnar vakna ástir þeirra Sofíu og Misja á ný. En eru þau tilbúin að hlaupast á brott frá fjölskyldu og vinum til að láta gamla drauma rætast? Myndin skartar stjörnum á borð við Aleksandr Kaljagin en þetta er það hlutverk sem hann er þekktastur fyrir. Rússnesk-ameríska leikkonan Jelena Solovey er einnig þekktust fyrir þær myndir sem hún lék í undir stjórn Nikita Mikhalkov.

Vasil7

Rússneskar teiknimyndir.

Posted by | Uncategorized | No Comments

Kvikmyndagerð í Sovétríkjunum var, eins og annar meiri háttar atvinnurekstur, ríkisrekin og þjóðnýtt. Kvikmyndaver hófu störf víða í sambandsríkjunum þegar á fyrstu áratugum Ráðstjórnar, en á árinu 1936 var ,,Sojuzdétmúltfilm” stofnað til að fást sérstaklega við gerð teikni- og brúðumynda. Í safni MÍR er mikill fjöldi slíkra mynda, einkum stuttmynda, ýmist 10 eða 20 mínútur að Sýningartími, langflestar á rússnesku og framleiddar í Sojuzmúltfilm á sjöunda og áttunda áratugnum. Kvikmyndasafnið mun sýna nokkrar þessarra mynda auk eldri rússneskra teiknimynda (sjá hér til hliðar). Spannar framleiðslutímabil þeirra um 70 ár eða frá 1912 – 1981.

Löng hefð er fyrir gerð teikni- og brúðumynda í Rússlandi, eins og reyndar fleiri löndum Mið- og Austur-Evrópu. Rússneskir kvikmyndagerðarmenn fengust við gerð teiknimynda strax á fyrstu árum 20. aldar og fyrsta brúðumyndin sem fullgerð var í heiminum kom fyrir sjónir almennings í Rússlandi árið 1912. Þar voru að verki tveir brautryðjendur í kvikmyndagerð, báðir þegnar þáverandi keisaradæmis, þeir Vladislav Starevítsj (1882 – 1965) og Aleksandr Khanzhonov (1877 – 1945). Sá fyrrnefndi var pólskur að þjóðerni en stundaði nám í Rússlandi og starfaði í Moskvu fram að byltingu 1917, en fluttist þá til Frakklands og bjó í París til dauðadags. Starevítsj var lærður skordýrafræðingur en jafnframt mikill áhugamaður um ljósmyndun og kvikmyndagerð. Hann langaði ungan að sviðsetja og kvikmynda bjöllur og önnur skordýr í bardagaham. ,,Ég beið dögum saman eftir tækifæri til kvikmyndunar, en bjöllurnar fengust með engu móti til að berjast þegar kastljósin beindust að þeim”. Á árinu 1910 hóf hann tilraunir við gerð stuttmyndar með skordýrum, tók kyrrmyndir af þeim og setti saman í hreyfimyndir. Með þessari aðferð varð fyrsta kvikmynd hans til í Rússlandi 1912 og síðan fylgdu margar á eftir. Rússinn Aleksandr Khanzhonkov, aðal samstarfsmaður Starevítsj, setti á stofn fyrsta kvikmyndaverið í Rússlandi árið 1911. Fyrstu brúðumyndir þeirra félaganna voru lengi taldar til sögulegra fyrirbæra á tæknisviði kvikmyndanna.

Eftir Októberbyltinguna 1917 og borgarastyrjöldina sem fylgdi í kjölfarið lá almenn kvikmyndagerð í Rússlandi niðri. Hún hófst ekki að nýju fyrir alvöru fyrr en um miðjan þriðja áratuginn þegar hinn frægi sovéski kvikmyndaleikstjóri Dziga Vertov (1896 – 1945) snéri sér um skeið að gerð teikni- og brúðumynda og fékk til liðs við sig áhugasama og framsækna myndlistamenn.

Á þriðja áratugnum voru nær allar teikni- og brúðumyndir framleiddar til áróðurs fyrir hugsjónir byltingarinnar og hina nýju lífssýn, ólíkt þeim verkum í þessum flokki kvikmynda sem unnar voru á Vesturlöndum og höfðu skemmtanagildið eitt að markmiði. Síðari hluti fjórða áratugs aldarinnar var gróskumikill tími í sovéskri kvikmyndagerð en innrás Þjóðverja í Sovétríkin sumarið 1941 setti strik í reikninginn eins og geta má nærri. Mörg kvikmyndaverin í vesturhluta ríkisins urðu að hætta störfum og önnur fluttu starfsemi sína, tæki og tól, austur á bóginn sem lengst frá vígvöllunum. Þannig varð Alma-Ata í Kazakhstan um skeið miðstöð sovéskrar kvikmyndagerðar. Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari reis þjóðlíf í Sovétríkjunum smám saman aftur úr rústum eyðileggingarinnar og þróun og viðgangur teikni- og brúðumyndageirans í kvikmyndagerðinni hélt áfram. Á fyrri hluta sjöunda áratugarins höfðu sovéskar kvikmyndir unnið sér góðan orðstír á alþjóðavettvangi, verk sovéskra kvikmyndargerðarmanna voru sýnd um heim allan og unnu oft til verðlauna og viðurkenningar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Þar voru teikni- og brúðumyndir ekki undanskildar. Með falli Sovétríkjanna og einkavæðingu á öllum sviðum gjörbreyttist grundvöllur rússneskrar kvikmyndagerðar sem og annarra atvinnugreina.

Þessar myndir verða sýndar:

Hefnd kvikmyndatökumannsins (Mest’Kinematografitsjeskogo Operatora)

Fyndin saga af kvikmyndatökumanni sem stendur konu sína að því að halda framhjá sér, þegar hann er að kvikmynda fyrir utan Hótel ástarinnar (Hôtel d’Amour).

Síðasti sótarinn (Posledníj trúbotsjist)

Reykháfum fer fækkandi svo sótarinn finnur sér nýjan starfsvettvang á þökum borgarinnar og fer að setja upp sjónvarpsloftnet.

Fjölskyldumaraþon (Semeinij marafon)

Eiginkona maraþonhlaupara sinnir heimilisstörfum á milli þess sem hún hleypur mann sinn uppi í maraþonkeppni og aðstoðar á allan hátt.

Vasilísa hin fagra (Vasilísa prekrasnaja) 

Rússneskt ævintýri um fallegan prins sem leysir allar þrautir og losar prinsessuna úr álagafjötrum frosks.

Lukkudýrið  (Fetiche Mascotte) 

Tuskuhundur lendir í hremmingum við að útvega dóttur eiganda síns appelsínu.

 

 

Myndin er sýnd í Bæjarbíói Hafnarfirði,

Rússneskar teiknimyndir

 Þri 29. okt kl. 20.00 og Lau 02. nóv kl. 16.00